Skip to main content

Arkitektinn


Arkitektinn Johann Friedrich (Fritz) Höger fæddist 1877 skammt frá Hamborg í Þýskalandi. Hann lærði smíðar og múrverk en var sjálfmenntaður sem arkitekt. Hann rak teiknistofu í Hamborg frá 1907 og teiknaði allt frá íbúðarhúsum og upp í kirkjur og ráðhús.

Nafn Högers er þekkt í þýskri og alþjóðlegri byggingarlistarsögu 20. aldar enda var hann einn helsti brautryðjandi norður-þýsks múrsteins- expressjónisma (Backsteinexpressionismus).

Þekktasta bygging Högers er Chile-Haus í Hamborg, sem hann teiknaði fyrir kaupsýslumanninn Henry B. Sloman. 10.000 fermetra skrifstofubygging byggð á árunum 1922-1924. Lögun húsins er einstök og er það eitt þeirra húsa í Hamborg sem bíða þess að komast inn á heimsminjaskrá UNESCO.

Höger gerðist félagi í nasistaflokknum á fjórða áratugnum og reyndi að koma sínum byggingarstíl að hjá stjórnendum þriðja ríkisins. Hinn klassíski stíll Albert Speer varð hins vegar ofan á og eftir 1935 fór að halla undan fæti hjá Höger.

Fritz Höger var mikill áhugamaður um bókmenntir og orti sjálfur ljóð. Hann var félagi í Norræna félaginu þýska (Nordische Gesellschaft) og sótti samkomur skáldahópsins Eutiner Dichterkreis. Það var á þeim vettvangi sem hann kynntist Gunnari og tókst með þeim góð vinátta. Þeir áttu það sammerkt að hafa brotist úr fátækt til frægðar og frama. Vinátta þeirra entist allt þar til Höger lést í júní árið 1949.