• Gunnarsstofnun varð til árið 1997 með reglum sem menntamálaráðherra, Björn Bjarnason, setti um stofnunina. Samkvæmt þeim reglum, með áorðnum breytingum, starfaði Gunnarsstofnun allt til ársloka 2007 og tók mið af gjafabréfi Gunnars Gunnarssonar skálds og Franziscu Gunnarsson, konu hans, frá 11. desember 1948. Frá 1. janúar 2008 hefur stofnunin verið rekin sem sjálfeignarstofnun með skipulagsskrá.

  Árið 1999 var gert samkomulag milli menntamálaráðuneytis og landbúnaðarráðuneytis um að Gunnarsstofnun hefði til umráða og umsjónar á Skriðuklaustri í Fljótsdal, Gunnarshús, Skriðu sem forstöðumannsbústað, og 15 ha lóð umhverfis húsin. Þar hefur stofnunin aðsetur sitt þó að starfsvettvangur hennar sé Austurland og í raun heimurinn allur.

  Á Skriðuklaustri rekur Gunnarsstofnun menningar- og fræðasetur með lifandi menningarstarfsemi árið um kring, sýningum, tónleikum, fyrirlestrum og öðrum viðburðum.

 • Gunnarsstofnun hefur sjálfbæra þróun og verndun umhverfisins að leiðarljósi í öllu sínu starfi. Á þann hátt leggur stofnunin sitt af mörkum til að mæta þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til þess að mæta þörfum sínum. Umhverfisstefnan og framkvæmd hennar er liður í daglegu starfi Gunnarsstofnunar til að draga úr álagi á umhverfið, auka gæði og vekja áhuga á innra umhverfisstarfi. Stefnan tekur til allrar starfsemi Gunnarsstofnunar og á einnig við um innkaup, vinnuumhverfi, notkun auðlinda og meðferð efna og úrgangs. Gunnarsstofnun fylgir lögum og reglum um umhverfismál í starfsemi sinni. Forstöðumaður stofnunarinnar er ábyrgur fyrir framkvæmd stefnunnar. Allt starfsfólk stofnunarinnar framfylgir umhverfisstefnunni og hefur hana að leiðarljósi í störfum sínum. Sérhver starfs[1]maður sýnir gott fordæmi og leggur sitt af mörkum í þágu umhverfisverndar og sjálfbærrar þróunar.

  Markmið
  • Að hafa sjálfbæra þróun og vernd umhverfisins að leiðarljósi í öllu starfi Gunnarsstofnunar.

  • Að úrbætur í rekstri og þjónustu taki mið af því að minnka umhverfisáhrif.

  • Að halda auðlinda- og efnanotkun í lágmarki og draga úr mengun eins og kostur er.

  • Að vinna stöðugt að því að draga úr úrgangi og stuðla að endurnýtingu og endurvinnslu hans.

  • Að koma upp varmadælum til húshitunar.

  • Að efla vistvænar samgöngur.

  Aðgerðir og aðföng

  • Velja skal umhverfismerktar rekstrarvörur, s.s. pappír, hreinlætisvörur og ræstiefni.

  • Við innkaup skal tekið tillit til umhverfissjónarmiða jafnt sem kostnaðar og gæða. Ef vörur eða þjónusta eru sambærilegar að öðru leyti ber að velja þann kost sem telst síður skaðlegur umhverfinu. 5 1 Stofnun Gunnars Gunnarssonar Stefna 2017 – 2027

  • Draga úr notkun einnota aðfanga, s.s. plastpoka, einnota hanska og óþarfa umbúða.

  • Við rekstur og viðhald bygginga og lóðar skal leitast við að endurnýta efni eins og hægt er og velja vistvæna kosti hverju sinni, s.s. málningarvörur, ljósaperur, garðaúðun, áburð o.fl.

  • Upplýsa skal verktaka um stefnu Gunnarsstofnunar í umhverfismálum og gera kröfur um að þeir fylgi henni eftir. ✦ Allur tölvu- og skrifstofubúnaður skal vera með viðeigandi umhverfis- og orkusparandi merkingar.

  • Fara skal sparlega með vatn og orkuauðlindir, t.d. láta vatn ekki renna að óþörfu, slökkva á rafmagnstækjum og ljósum í lok vinnudags eða þegar ekki er nauðsynlegt að hafa kveikt. Liður í því er að koma upp varmadælum til húshitunar til að draga úr raforkunotkun.

  Efnanotkun, endurnýting og meðferð úrgangs
  • Fara sparlega með efni og efnavörur, t.d. við uppþvott og ræstingar.

  • Ræstivörur sem notaðar eru hjá Gunnarsstofnun skulu vera merktar með viðurkenndu umhverfismerki, s.s. Norræna svaninum, Evrópublóminu eða Bra Miljöval.

  • Flokka og ganga frá úrgangi í samræmi við leiðbeiningar og samkvæmt flokkunarkerfi þjónustufyrirtækis.

  • Stöðugt skal draga úr pappírsnotkun, m.a. með því að prenta báðum megin á blöðin og gæta þess að prenta hvorki né ljósrita að óþörfu.

  • Öllum spilliefnum skal fargað á viðeigandi hátt, s.s. rafhlöðum, prenthylkjum, ljósaperum og málningarvörum.

  • Öllum öðrum úrgangi skal fargað á viðeigandi hátt.

  Samgöngur

  • Leitast skal við að velja umhverfisvænar leiðir í samgöngum þegar ferðast er á vegum Gunnarsstofnunar, t.d. velja mengunarlitla bílaleigubíla og ganga styttri vegalengdir.

  • Leitast skal við að halda fjarfundi eftir því sem kostur er.

  • Við kaup á bifreiðum skal velja sparneytin og vistvæn ökutæki.

  • Starfsmenn skulu einnig hvattir til að samnýta ökutæki þegar ferðast er til og frá vinnu svo sem kostur er.

  • Stuðla skal að eflingu almenningssamgangna í anda sjálfbærrar þróunar.

  Umhverfisvísar og fræðsla

  • Gunnarsstofnun skal halda yfirlit yfir helstu „grænu“ lykiltölur í rekstri og skrá og vakta árangurinn með það að markmiði að stuðla að betri nýtingu auðlinda, að draga úr sóun hráefna og auka endurnýtingu og endurvinnslu. Dæmi: pappírsnotkun, orkunotkun, efnanotkun og magn sorps.

  • Starfsfólk Gunnarsstofnunar fær reglulega fræðslu um umhverfismál.

  Þessi umhverfisstefna er hluti af STEFNU GUNNARSSTOFNUNAR 2018-2027 og  sem slík tekin til endurskoðunar á fimm ára fresti

 • Forstöðumaður

  Skúli Björn Gunnarsson er fæddur austur á Fljótsdalshéraði 24. mars 1970. Hann er íslenskufræðingur að mennt og með MA-gráðu í Hagnýtri menningarmiðlun frá HÍ.  Hann starfaði við útgáfu, kynningu, auglýsingar, margmiðlun, vefsíðugerð og almannatengsl áður en hann tók við starfi forstöðumanns Gunnarsstofnunar 1. október 1999.

  Netfang Skúla Björns er skuli [hja] skriduklaustur.is

  Aðrir starfsmenn

  Ólöf Sæunn Valgarðsdóttir (Skotta) er mannfræðingur sem starfað hefur hjá Gunnarsstofnun með hléum frá 2001. Hún er staðarhaldari og hefur umsjón með starfsemi á staðnum auk annarra verkefna.

  Netfang Ólafar Sæunnar (Skottu) er skotta [hja] skriduklaustur.is

  Sumarstarfsmenn

  Fjöldi starfsmanna Gunnarsstofnunnar og Klausturkaffis eykst til muna yfir háannartímann.

   

   

 • Stjórn sjálfseignarstofnunarinnar er þannig skipuð frá og með 1. janúar 2021 til 31. desember 2023:

  • Gunnar Björn Gunnarsson, skipaður af menntamálaráðneyti, varamaður hans er Gunnar Martin Úlfsson.
  • Sigríður Sigmundsdóttir, skipuð af Austurbrú ses., varamaður hennar er Gauti Jóhannesson.
  • Steinunn Kristjánsdóttir, skipuð af Háskóla Íslands, varamaður hennar er Rúnar Helgi Vignisson.
  • Annette Lassen skipuð af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, varamaður hennar er Halldóra Jónsdóttir.
  • Margrét Tryggvadóttir skipuð af Rithöfundasambandi Íslands, varamaður hennar er Sindri Freysson.
 • Gunnarsstofnun gefur út tvær ritraðir auk annars efnis. Annars vegar eru það Austfirsk safnrit sem er úrval austfirskra þjóðsagna og af því eru komin út sex bindi. Hin ritröðin er Fræðirit Gunnarsstofnunar og eru komin út tvö bindi í henni. Hér er að finna nánari upplýsingar um þessar útgáfur og aðrar auk árskýrslna stofnunarinnar.

  Austfirsk safnrit sem eru ódýrar kiljur með úrvali austfirskra þjóðsagna:

  • 2016. Austfirskar tröllasögur.
   Umsjón með útgáfu: Aldís Fjóla Ásgeirsdóttir, Hrafnkatla Eiríksdóttir & Ólöf Sæunn Valgarðsdóttir.

  • 2011. Austfirsk Grýlukvæði.
   Umsjón með útgáfu: Aldís Fjóla Ásgeirsdóttir & Skúli Björn Gunnarsson.

  • 2007. Austfirskar skrímslasögur.
   Umsjón með útgáfu: Dagný Bergþóra Indriðadóttir.

  • 2006. Austfirskar draugasögur.
   Umsjón með útgáfu Ólöf Sæunn Valgarðsdóttir & Halldóra Tómasdóttir.

  • 2003. Austfirskar huldufólkssögur.
   Umsjón með útgáfu: Guðjón Bragi Stefánsson, Kristín Birna Krisjánsdóttir & Skúli Björn Gunnarsson.

  • 2002. Austfirskar útilegumannasögur.
   Umsjón með útgáfu: Dagný Bergþóra Indriðadóttir.
  Fræðirit Gunnarsstofnunar eru greinasöfn eða fræðibækur:

  • 2015. Gunnar Gunnarsson & Norge. (á norsku).
   Höfundur Oskar Vistdal. (Kindle: http://amzn.com/B00VHYVL4M) (Ítarefni: Vedlegg 1; Vedlegg 2: Vedlegg 3)

  • 2006. Skriðuklaustur: evrópskt miðaldaklaustur í Fljótsdal.
   Ritstjórar: Hrafnkell Lárusson & Steinunn Kristjánsdóttir.
  Ársskýrslur Gunnarsstofnunar:

  * Ársskýrslurnar eru allar vistaðar á PDF formi.

 • Klausturreglan er félag fastagesta og hollvina Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri. Aðild að reglunni geta allir fengið sem hafa áhuga. Þeir sem eru skráðir félagar fá send fréttabréf og upplýsingar um starfsemina á Skriðuklaustri. Félagar greiða árgjald sem veitir þeim ýmis fríðindi. Innifalið í árgjaldi er:

  • almennur aðgangur að Gunnarshúsi
  • 25% afsláttur á viðburði á vegum Gunnarsstofnunar
  • 10% afsláttur af bókum, minjagripum og öðrum vörum
  • 10% afsláttur hjá Klausturkaffi

  Markmiðið með stofnun Klausturreglunnar var að byggja upp hóp velunnara Skriðuklausturs og Gunnarsstofnunar. Á ári hverju koma margir gestir aftur og aftur í Skriðuklaustur og á viðburði á vegum Gunnarsstofnunar og til þess að þeir gestir fái að njóta hollustu sinnar þótti rétt að stofna Klausturregluna.

  Árgjald í Klausturreglunni er 2.500 kr. fyrir einstaklinginn en sé um hjón eða par að ræða kostar aðeins 3.500 fyrir tvo. Regluárið er frá vori til vors og ný árskort send út í maí. Meðlimir reglunnar fá lítið skírteini (sjá sýnishorn hér að neðan) sem þeir hafa til sönnunar um aðild sína að reglunni og framvísa þegar þeir koma í Skriðuklaustur.

Hafa samband

+354 471 2990
This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Komdu í heimsókn

Gunnarsstofnun
Skriðuklaustur
701 Egilsstaðir
Kort

Fylgdu okkur