Minjasvæðið á Skriðuklaustri geymir rústir munkaklausturs af reglu heilags Ágústínusar frá 16. öld. Klaustrið var stofnað um 1493 en lagt niður við siðaskiptin 1550. Á næstu öldum gleymdist klaustursagan en var endurvakin í rannsókn árin 2000-2012. 

Upphafið

Skriðuklaustur var stofnað síðast þeirra klaustra sem störfuðu á Íslandi á kaþólskum tíma. Það var aðeins rekið í tæp 60 ár og blómaskeið þess stóð vart lengur en í fjóra áratugi. Varðveitt er gjafabréf Sesselju Þorsteinsdóttur og Hallsteins Þorsteinssonar, sýslumanns á Víðivöllum ytri í Fljótsdal, um að þau gefi jörðina Skriðu til stofnunar klausturs. Bréfið er undirritað 8. júní árið 1500 en talið er fullvíst að klaustrið hafi verið stofnað fyrr og líklega þegar Stefán Jónsson, biskup í Skálholti, vísiteraði Fljótsdal í fyrsta sinn árið 1493.

Endalokin

Ný kirkjuskipan tók gildi í Skálholtsbiskupsdæmi árið 1541, fjórum árum eftir að lútherstrú var lögleidd í Danmörku. Danski konungurinn lagði þá hald á klaustrin og eignir þeirra en Skriðuklaustur starfaði áfram í rúman áratug á undanþágu. Klausturhaldi á Skriðu lauk formlega 12. september 1554 þegar konungurinn undirritaði leigusamning vegna eigna klaustursins.
Allt bendir til þess að klausturhúsin hafi fengið að falla í friði þegar nýtilegir munir höfðu verið fjarlægðir og timbur hirt. Klausturkirkjan stóð hins vegar áfram og var á ábyrgð þeirra sem fóru með umboð Skriðuklausturs hverju sinni. Um 1670 var minni kirkja byggð á rústum þeirrar gömlu. Skriðukirkja var afhelguð árið 1792.

Gjafabréf

… gefið jörðina alla Skriðu í Fljótsdal, fyrst að upphafi, Guði almáttugum, jómfrú Maríu og helga blóði til ævinlegs klausturs.

Gjafabréf Hallsteins og Sesselju frá 8. júní 1500 er ritað á skinn og með innsigli. Það er varðveitt á Þjóðskjalasafni Íslands, AM XXXIV, 21. Ljósmynd: ÞÍ.

Tíu ára uppgröftur

Sumarið 2000 voru rústirnar staðsettar á Kirkjutúni við hlið friðlýsts kirkjugarðs. Uppgröftur hófst 2002 og stóð til 2012 þegar minjasvæðið var opnað formlega fyrir gestum.

Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur stýrði rannsókninni á klausturminjunjum. Að jafnaði voru 14 fornleifafræðingar að störfum á hverju sumri og grafið í 8-9 vikur. Að rannsókninni komu jafnframt sérfræðingar á ýmsum sviðum. Samtals var 131 starfsmaður, frá 12 löndum, ráðinn til rannsóknarinnar á Skriðuklaustri þann rúma áratug sem hún stóð yfir, við undirbúning, uppgröftinn sjálfan og sértækar greiningar.

Í fyrstu miðaði rannsóknin að uppgreftri á minjum um byggingar, kirkju og búsetu reglubræðra. Sérstakt kapp var lagt á að finna leifar um bóklega iðju þeirra, samkvæmt ríkjandi hugmyndum um íslensk klaustur. Fljótlega beindist rannsóknin hins vegar að kirkjugarði klaustursins. Hann geymdi mikilvægar upplýsingar um heilsufar almennings og aðbúnað við líkn og hjúkrun sem og daglegt líf á miðöldum.

Leitin

Uppgröftur

Frágangur

Byggingar

Grunnflötur bygginga er um 700 fermetrar og hluti þeirra á tveimur hæðum. Herbergin voru misjöfn að stærð og gerð. Stærst er kirkjan sem tengdist íveruhúsum kórbræðra með yfirbyggðum gangi, svokallaðri næturtröppu. Samtengdur en fjær kirkjunni var sá hluti byggingaklasans sem hýsti sjúklinga og pílagríma auk eldhúss og geymslurýma.

Frá lokum uppgraftrar árið 2012 hefur verið unnið að áfram að rannsóknum og miðlun klaustursögunnar. Árið 2012 var teiknað fyrsta þrívíddarlíkanið sem varð grunnurinn að ítarlegri líkangerð hjá St. Andrews háskólanum í Skotlandi gegnum CINE-verkefnið. Þetta tilgátulíkan hefur verið fært inn í Unreal-leikjavél og er hægt að ganga um byggingarnar í sýndarveruleika með hjálp Oculus-búnaðar. Þessi sýndarheimur sést í myndbandinu hér til hliðar.

Kirkja

Sjúkraskáli (efri hæð)

Næturtrappa

Eldhús

Kirkjugarður

Svæði langveikra

Brugghús

Hitunarhús

Svefnskáli

dormitorium

Kapituli

capitulum

Leiði Jóns hrak

Kirkjugarður

Sunnan kirkju

Kirkjugarður

að kórbaki

Kirkjugarður

stækkun

Matsalur

refectorium

Krossgangur

Búr (neðri hæð)

Vinnurými

Geymsla

Kjötskemma

Gestaskáli (neðri hæð)

Ruslahaugur

Brunnur

Inngangur

Kirkjuhlið

Klausturhlið

Flóraður gangur

Flest bendir til þess að klausturhúsin hafi verið byggð í einni lotu á síðasta áratug 15. aldar. Kirkjan var byggð seinna og vígð 1512. Elsta bygging klasans gæti verið stóra rýmið við klausturhliðið. Gistiskálar voru oft reistir fyrstir húsa í miðaldaklaustrum þar sem stofnendur lögðu áherslu á líknarstarf. Þeir voru húsaskjól fyrir ferðalanga og pílagríma og hæli fyrir sjúka og fátæka sem leituðu á náðir klaustursins. Önnur hús voru síðan byggð í kringum þá.

Ekki eru til neinar skriflegar lýsingar á klausturhúsunum en í úttektum á staðnum eftir klausturtímann eru nokkur atriði nefnd varðandi klausturkirkjuna sem veita heimild um byggingarlag og innviði. Í þeim skjölum eru einnig taldar upp aðrar byggingar á staðnum sem munu hafa staðið þar sem Gunnarshús er núna og hýst umfangsmikinn búrekstur klaustursins.

Byggingarefni

Stórt hleðslugrjót var notað í veggi klaustursins og kann sumt að hafa verið höggvið til. Stutt var að fara eftir góðu grjóti í klettana í kring. Tvær samsíða raðir af steinum með þykkt veggjarins í milli mynduðu vegginn. Síðan var mokað innan úr rýminu sem verið var að byggja og efnið sett upp í vegginn milli steinraðanna og þjappað. Stundum voru torfstrengir lagðir þvert yfir hann til þess að binda hann betur. Þegar veggurinn var orðinn nógu hár hófst vinna við burðarvirki úr timbri fyrir þakið sem síðan var lagt torfi. Við uppgröftinn fannst ekkert af burðarvirkinu enda hefur allt timbur verið nýtt í aðrar byggingar eftir að starfsemi var hætt. Timbrið hefur verið mest rekaviður og birki sem notað var í þakrafta og sem hrís undir torfið. Flestar vistarverur hafa verið með timburklæddum veggjum og í sumum timburgólf en víðar hellulögn eða moldargólf.

Sjúkrastofnun

Við rannsóknina á Skriðuklaustri kom í ljós að klaustrið hafði eins og önnur Ágústínusarklaustur verið hæli fyrir sjúka og fátæka. Ritaðar heimildir vitna um skólahald fyrir börn í klaustrinu en saga sjúkrastofnunarinnar var glötuð en geymd í kirkjugarðinum.

Bein þeirra sem fengu hinstu hvílu í kirkjugarði klaustursins sýna neyð þeirra sem þangað leituðu: örkumla fólk vegna sýkinga, fæðingargalla eða slysa; fólk með sárasótt, sullaveiki og langvarandi sýkingar; einstaklingar sem skáru sig úr fjöldanum og gátu ekki alið önn fyrir sjálfum sér; konur í barnsnauð og lúbarðir vesalingar. Klaustrið var opið öllum og reglubræður veittu jafnvel óskírðum, andvana fæddum börnum leg í vígðri mold. Beinin vitna einnig um að við klaustrið vann fjöldi fólks sem vildi með vinnuframlagi sínu leggja sitt af mörkum til betra samfélags.

Kirkjugarður

Samtals fundust bein tæplega 300 einstaklinga í kirkjugarðinum og telst það vera um 1% þjóðarinnar á fyrri hluta 16. aldar. Grafnar voru upp 242 grafir. Í helmingi þeirra voru bein sjúklinga, um 130 voru talin bein óvígðra leikmanna og 20 vígðs reglufólks.

Mannabeinasafnið frá Skriðuklaustri er það stærsta úr einum uppgreftri á Íslandi. Það telur 260 varðveittar beinagrindur, heilar eða að hluta. Þó að engin þekki nöfnin á þessum einstaklingum veita bein þeirra ómetanlega innsýn í samfélag og heilsu þessa horfna tíma.

 

Munir

Yfir 13 þúsund gripir og bein voru skráð í fornleifarannsókninni. Góð skilyrði á staðnum gera það að verkum að allt niður í smæstu fiskibein hafa varðveist í moldinni. Varla er hægt að segja að einn einasti heill gripur hafi fundist enda allt nýtilegt hirt úr húsunum þegar hætt var að nota þau. Dæmi um stærri gripi er líkneski heilagrar Barböru sem fannst í mörgum brotum í kirkjurústinni. Eitt brot styttunnar, andlitið sjálft, fannst samt í eldhúsrýminu tveimur sumrum seinna. 

Hluti af CINE-verkefninu var að búa til þrívíðar myndir af völdum munum. Þessi tækni (e. photogrammetry) gefur notandanum færi á að skoða safngripinn vandlega á skjánum og nýtist bæði til miðlunar og frekari rannsókna. 

Minjasvæði

Rannsóknarsvæðið náði yfir um 1500 fermetra. Rústirnar voru grunnt í jörðu og meðaldýpt uppgraftrar um einn metri. Á þeim 10 árum sem uppgröfturinn stóð færðu fornleifafræðingarnir til jarðveg og grjót sem samsvaraði um 200 vörubílsförmum.

Meirihluta efnisins var komið fyrir aftur á svæðinu við frágang. Lágir veggir voru hlaðnir upp úr grjóti, mold og torfi til þess að sýna grunnform bygginganna. Fyllt var upp í grafir og óslétta fleti með mold og sett lerkikurl í þau rýmri sem töldust innanhúss en tyrft yfir aðra hluta eins og kirkjugarðinn. Með þessu móti voru rústirnar gerðar aðgengilegar almenningi og fræðsluskiltum komið fyrir í hverju herbergi. Jafnframt var byggður útsýnispallur á kletti ofan við minjarnar.

Með hjálp tækninnar og 360° mynda er nú hægt að heimsækja minjasvæðið gegnum netheima. Á Roundme-gáttinni hefur verið komið fyrir myndum frá svæðinu og einnig úr sýndarheimi CINE-verkefnisins.

Jarðeignir og samgöngur

Íslensk miðaldaklaustur höfðu framfærslu sína fyrst og fremst af jarðaumsýslu auk sálugjafa sem því hlotnuðust í formi matar og klæða. Alls koma um 60 jarðir og hjáleigur við sögu Skriðuklausturs sem gjafir eða við kaup og sölu. Flestar eru jarðirnar á Austurlandi og á mörgum voru afbýli svo að leiguliðarnir voru fleiri. Jarðirnar voru mikilvægasta eign klaustursins og uppspretta auðs. Gjöld af eignarjörðum voru yfirleitt greidd í fríðu, svo sem í vaðmáli, smjöri og annarri matvöru, kvikfénaði, skreið, mjöli, reka, viðarkolum og jafnvel hrísi.

Klausturjörðin Skriða er stór, yfir 10.000 hektarar (100 ferkílómetrar), með víðáttumiklum beitilöndum og grösugum heimahögum. Hún stendur við forna þjóðleið því að aðalleiðin norður í land hefur um aldir legið upp á Fljótsdalsheiði þar sem nú er malbikaður vegur upp með gili Bessastaðaár. Farartálminn Lagarfljót neyddi ríðandi menn sem ætluðu austur fyrir það til að nota vöðin yfir Jökulsá í Fljótsdal á leið sinni til Austfjarða. Á klausturtíma var aðalverslunarstaður Austurlands í Gautavík í Berufirði og þangað lá leið um Suðurdal. Leiðin til verstöðva í Suðursveit lá inn Norðurdal og suður um langtum minni Vatnajökul þar sem nú er Brúarjökull.

Skriðuklaustur stóð á krossgötum líkt og mörg önnur miðaldaklaustur og veitti ferðalöngum þess tíma gistingu og mat.


Með að klikka á kortið getur þú skoðað jarðeignir og ferðaleiðir tengdar Skriðuklaustri á klausturtímanum.  

Leiðir og landamerki eru teiknað gróft inn á kortið til myndrænnar framsetningar.

→ Kortið opnast í öðrum glugga. Þar er hægt að velja hvað birtist hverju sinni.

Velja þarf hvað þú vilt í "layer" og svo ⟳ til að sjá hvert lag fyrir sig.

 

CINE-verkefnið Tenging náttúru- og menningarminja í umhverfi Norðurslóða (CINE) miðar að því að bæta við upplifun fólks á minjum með því að nýta nýjar tæknilausnir í anda hugmyndafræði um „safn án veggja“. Ný stafræn tækni, s.s. viðaukinn veruleiki (augmented reality, AR), sýndarheimar (virtual reality, VR) og notendavæn smáforrit, eru nýtt til að blása lífi í fortíðina. CINE-verkefnið naut stuðning Norðurslóðaáætlunar ESB. Það hófst haustið 2017 og stóð til ársloka 2020. Að því komu söfn, menningarsetur, stofnanir, háskólar og fleiri aðilar í Noregi, Skotlandi, á Íslandi, Írlandi og Norður-Írlandi. 

Skriðuklaustur verkefnisdæmið

Gunnarsstofnun vann í verkefninu með arfleifð miðaldaklaustursins á Skriðu við þróun á miðlun og gagnaöflun. Ýmiskonar tækni var prófuð með það að markmiði að þróa verkfærakistu sem gerir söfnum og fræðimönnum, einstaklingum og samfélögum, kleift að skapa nýstárlega nálgun á náttúru- og menningarminjar og upplifun á staðnum eða heima í stofu. Hluta af afrakstrinum má sjá hér að ofan.

Leiðin yfir Vatnajökul

Eitt af því sem rannsakað var sérstaklega var leiðin sem vinnumenn frá Skriðuklaustri fóru til verstöðvar í Hálsahöfn í Suðursveit fyrir 500 árum. Sú leið lá að hluta yfir Vatnajökul sem var margfalt minni á 16. öld heldur en hann er í dag. Efnt var til samstarfs við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, Landmælingar Íslands og fræðimenn til að varpa ljósi á leiðina sem var farin og þær breytingar sem orðið hafa á gróðurfari og jöklum frá klausturtíma. Safnað var myndefni á vettvangi og því miðlað gegnum sýndarveruleika og snertiskjá til að sýna þessa fornu ferðaleið. Velta má fyrir sér hvenær jökulleiðin verður greiðfær að nýju vegna loftlagsbreytingar.

 Leikjavæðing og menningarmiðlun

Nýting leikja og leikjavæðing við menningarmiðlun var eitt af því sem tekið var fyrir í vinnupakka sem Íslendingar og Írar báru ábyrgð á. Haldin var stór námstefna í Reykjavík í mars 2018 undir yfirskriftinni Leikum okkur með menningararfinn og gerðar tilraunir með leikja- og staðsetningarkerfi frá íslenska fyrirtækinu Locatify sem einnig er aðili að CINE. Skrifuð var handbók um leikjavæðingu fyrir söfn og minjastaði. Jafnframt var skoðað hvernig best er að vinna að varðveislu og miðlun menningarminja með nærsamfélaginu. Sjá má leiðarvísa og annan afrakstur vinnupakkans á síðunni cinecommunities.org og cinegamification.com.

Samstarfsaðilar

Íslenskir samstarfsaðilar Gunnarsstofnunar og Locatify í CINE-verkefninu voru: Minjastofnun Íslands, Vatnajökulsþjóðgarður, Fljótsdalshreppur og Óbyggðasetur Íslands. Að auki hafa fjölmargir lagt hönd á plóg og ýmis hliðarverkefni orðið að veruleika með styrkjum frá Uppbyggingarsjóði Austurlands, Vinum Vatnajökuls, Samfélagssjóði Fljótsdals og Nýsköpunarsjóði námsmanna.

 

Hafa samband

+354 471 2990
This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Komdu í heimsókn

Gunnarsstofnun
Skriðuklaustur
701 Egilsstaðir
Kort

Fylgdu okkur