Gunnarshús 75 ára

Fyrsta færsla í vinnudagbók Odds Kristjánssonar yfirsmiðs á Skriðuklaustri vegna Gunnarshúss var fyrir nákvæmlega 75 árum, 5. júní. Þó að framkvæmdir væru hafnar fyrr við að taka grunn fyrir húsið þá markar þessi dagsetning ákveðin kaflaskil og frá og með þessu degi fjölgaði þeim jafnt og þétt sem unnu að húsbyggingunni í Fljótsdal allt sumarið 1939. Þess verður minnst sunnudaginn 22. júní nk. að 75 ár eru liðin frá því Gunnarshús reis sem höll í dalnum. Gunnarsstofnun hvetur alla gesti á Skriðuklaustri til að gefa afmælisbarninu koss eða knús í sumar og setja inn á samfélagsmiðla undir merkinu #skriduklaustur75. Hver veit nema verðlaun verði veitt fyrir skemmtilegustu myndirnar þegar haustar. Hægt er að fylgjast með myndaleiknum á Facebook-síðu Skriðuklausturs eða hér.

Afmælismálþing í Norræna húsinu

Sunnudaginn 18. maí nk. verða liðin 125 ár frá fæðingu rithöfundarins Gunnars Gunnarssonar. Í tilefni þess efnir Gunnarsstofnun í samvinnu við Norræna húsið til afmælismálþings í Norræna húsinu frá kl. 13.30 til 17 þann dag. Haldin verða sex áhugaverð erindi um Gunnar og verk hans og Sigrún Hjálmtýsdóttir mun flytja verk eftir Áskel Másson, innblásið af Sonnettusveig Gunnars. Málþingið er öllum opið meðan húsrúm leyfir en yfirskrift þess er „Skáld á ekki samleið með neinum...“ og er sótt í grein eftir Gunnar.

Opnunarerindi málþingsins fjallar um samskipti Gunnars við Norðmenn og viðtökur á verkum hans í Noregi. Það er Oskar Vistdal, norskur rithöfundur, fræðimaður og þýðandi sem kynnir rannsóknir sínar, en hann hefur nýlokið við að skrifa bók um Gunnar og Noreg.

Jón Yngvi Jóhannsson bókmenntafræðingur, sem skrifaði ævisögu Gunnars fyrir fáum árum, mun fjalla um skandivisma Gunnars í erindi sem hann kallar Bandaríki Norðurlanda – Draumur Gunnars Gunnarssonar um nýtt heimaland. Áskell Másson tónskáld flytur erindið Vorsöngur – til kviknandi lífs og segir frá glímu sinni við að semja tónverkið Söngvar um vorið sem er innblásið af Sonnettusveig Gunnars. Sigrún Hjálmtýsdóttir mun flytja fyrsta hluta verksins sem kallast Sveigur. Róbert Haraldsson, prófessor í heimspeki, verður með hugleiðingu um síðasta skáldverk Gunnars, Brimhendu og kallar erindi sitt Tyrfin bók túlkuð. Kristján Jóhann Jónsson, dr. phil og dósent í íslensku, talar um Tvö heimsborgara í sínu erindi og að lokum mun Silja Aðalsteinsdóttir, ritstjóri og bókmenntafræðingur, fjalla um barnasögur Gunnars sem komu út um miðja síðustu öld og voru m.a. myndskreyttar af sama teiknara í Bretlandi og sögur Enid Blyton. [Hér má nálgast dagskrána í heild sinni]

Sumarið er komið

Frá og með 1. maí er opið alla daga frá kl. 12 til 17. Hádegis- og kaffihlaðborð hjá Klausturkaffi og sýningar opnar í húsinu. Sunnudaginn 4. maí lýkur sýningunni Tréskurður - handverk og list og við tekur í stássstofunni sýningin Undir Klausturhæð, um miðaldaklaustrið á Skriðu, sögu þess og rannsókn. Laugardaginn 10. maí kl. 14 verður opnuð í gallerí Klaustri sýning Arons Kale og Írisar Lindar sem er hluti af listahátíðinni List án landamæra. Sama dag kl. 16 mun Anna Kristjánsdóttir, prófessor emeríta við HÍ, flytja erindi sem hún kallar Feðgarnir og segja frá bók sem hún er með í smíðum um Sæbjörn Egilsson bónda á Hrafnkelsstöðum og Magnús Sæbjörnsson sem varð læknir í Flatey á Breiðafirði. Sunnudaginn 18. maí mun Gunnarsstofnun svo standa fyrir málþingi í Norræna húsinu í Reykjavík í tilefni þess að þá verða liðin 125 ára frá fæðingu Gunnars skálds.

Tréskurður - handverk og list

Sunnudaginn 30. mars kl. 14 verður opnuð sýningin Tréskurður – Handverk og list. Á sýningunni eru fjölbreytt skurðverk eftir tólf félagsmenn í Félagi áhugamanna um tréskurð, sex karlmenn og sex konur. Verkin eru úr ólíkum viðartegundum og af fjölbreyttum toga; lágmyndir, smáhlutir, askar, lampar, speglar, kistlar og styttur svo nokkuð sé nefnt. Verkin eru ýmist hefðbundin tréskurðarverk eða eigin hugarsmíð tréskeranna. Auk tréútskurðar eru á sýningunni gripir úr horni og hvaltönnum. Sýningin er komin frá Menningarmiðstöðinni Gerðubergi og sýningarstjóri er Kristín Þóra Guðbjartsdóttir.

Þátttakendur í sýningunni eru þau; Anna Lilja Jónsdóttir, Bjarni Þór Kristjánsson, Friðgeir Guðmundsson, Guðmundur Ketill Guðfinnsson, Guðný Jóhanna Kjartansdóttir, Jón Adólf Steinólfsson, Karen Huld Gunnarsdóttir, Lilja Sigurðardóttir, Sigga á Grund, Sigríður Sigurðardóttir, Sigurjón Gunnarsson og Stefán Haukur Erlingsson. Sýnendurnir hafa sumir hverjir stundað tréútskurð í áratugi og hafa hann starfi sínu á meðan aðrir hafa nýlega kynnst tréskurði og hafa hann sem áhugamál meðfram annarri vinnu.

Sýningin Tréskurður – Handverk og list stendur til 4. maí á Skriðuklaustri. Hún verður opin á sunnudögum í apríl (kl. 14-17), og á þriðjudögum og miðvikudögum (kl. 11-15) og um páskana (kl. 12-17).

Ljóðalestur og konudagskaffi

Sunnudaginn 23. feb. verður ljóðalestur á Skriðuklaustri. Finnsku ljóðskáldin Katariina Vuorinen og Marko Niemi lesa úr verkum sínum ásamt Ingunni Snædal og fleiri austfirskum skáldum. Katariina og Marko hafa að undanförnu dvalið hér á landi vegna samstarfs íslenskra og finnskra ljóðskálda og lesið m.a. í Norræna húsinu og á Hörmungardögum á Hólmavík. Ljóðalesturinn hefst kl. 14.30 og að honum loknum er konudagskaffi hjá Klausturkaffi. Kaffihúsið er opið kl. 15 - 17 á konudaginn.

Hafðu samband

  • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Komdu í heimsókn

Fylgdu okkur