Atli Heimir ásamt Huldu Björk Garðarsdóttur, Daníel Þorsteinssyni og Ágústi Ólafssyni á tónleikum á Skriðuklaustri 2006. Ljósm. SBG.

Atli Heimir látinn

Atli Heimir Sveinsson tónskáld er látinn. Hann hefur um áratugaskeið verið eitt fjölhæfasta og merkasta tónskáld Íslendinga og eftir hann liggja laglínur sem lifa munu um aldir með þjóðinni. Atli Heimir hélt mikið upp á skáldverk Gunnars Gunnarssonar. Eitt af þeim stóru verkefnum sem hann vann var sjónvarpsóperan Vikivaki sem flutt var samtímis á norrænu sjónvarpsstöðvunum árið 1989 þegar 100 ár voru liðin frá fæðingu Gunnars skálds. Tónskáldið hafði gengið með þá hugmynd í aldarfjórðung að gera stórt sviðsverk upp úr skáldsögunni. Annar merkur listamaður sem nú er einnig látinn, Thor Vilhjálmsson, orti söngtexta (liberetto) út frá sögunni sem Atli Heimir samdi tónlist við. Að verkefninu komu síðan listamenn, leikarar og söngvarar af öllum Norðurlöndunum og hljómsveit Danska ríkisútvarpsins lék undir stjórn Petri Sakari. Sjónvarpsóperan vakti mikla athygli og var eitt stærsta verkefnið sem ráðist var í til að fagna aldarafmæli Gunnars.

Atli Heimir lagði einnig hönd á plóg þegar 100 ára rithöfundarafmælis Gunnars var minnst árið 2006. Þá samdi hann lag við sonnettuna Vetrarnótt sem birtist í Eimreiðinni 1914. Lagið tileinkaði hann Franziscu Gunnarsdóttur sonardóttur skáldsins. Það var flutt á tónleikum í Gerðubergi og á Skriðuklaustri af Huldu Björk Garðarsdóttur, Ágústi Ólafssyni og Daníel Þorsteinssyni. 

Í Sinfóníu nr. 3 sem frumflutt var á Myrkum músíkdögum 2008 sótti Atli Heimir einnig innblástur í verk Gunnars, að þessu sinni í nóvelluna Drenginn. Þar nýtti hann ljóð þriggja eyjaskálda, Heinesens, Kasantsakisar og Gunnars til að semja söngsinfóníu um lífið, frelsið og dauðann. 

Atli Heimir dvaldi í nokkur skipti í gestaíbúðinni á Skriðuklaustri og þakka stjórn og starfsfólk Gunnarsstofnunar fyrir yndisleg kynni og gott samstarf um leið og við sendum fjölskyldu tónskáldsins innilegar samúðarkveðjur.

Á myndinni hér að ofan er Atli Heimir ásamt Huldu Björk Garðarsdóttur, Daníel Þorsteinssyni og Ágústi Ólafssyni á tónleikum á Skriðuklaustri 2006.

Hafðu samband

  • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Komdu í heimsókn

Fylgdu okkur