130 ár frá fæðingu Gunnars Gunnarssonar

„Sjálfsskilningur okkar grundvallast af sögunni og tungumálinu og þannig mætti segja að sjálfsmynd þjóðar verði til í bókmenntum,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra í ávarpi sínu í dagskrá sem Gunnarsstofnun efndi til í tilefni 130 ára frá fæðingu Gunnars Gunnarssonar þann 18. maí sl. Við það tækifæri var m.a. undirritaður nýr samningur á milli Gunnarsstofnunar og mennta- og menningarmálaráðuneytis sem tryggir stofnuninni um 50 m.kr árlegt framlag á fjárlögum.

Afmælisdagskráin fór fram í Gunnarshúsi á Dyngjuvegi 8 á fæðingardegi Gunnars og færði viðstöddum heim sanninn um það að sköpunarkraftur skáldsins hefur skilað sér til nýrra kynslóða. Hljómsveitin Mógil flutti tvö lög af hljómdiski sem sækir innblástur og texta í Aðventu. Diskurinn kemur út hjá þýska útgáfufyrirtækinu Winter und Winter í haust og mun hljómsveitin fylgja honum eftir með tónleikaferð um Þýskaland í mars 2020.

Þá var undirritaður samstarfssamningur Gunnarsstofnunar, Kvikmyndasafns Íslands og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands um aldarafmæli kvikmyndarinnar Saga Borgarættarinnar sem Nordisk Film Kompagni gerði eftir skáldsögu Gunnars og kvikmyndaði á Íslandi árið 1919. Í tilefni aldarafmælis myndarinnar verður lokið við stafræna endurgerð hennar hjá Kvikmyndasafninu og Þórður Magnússon tónskáld hefur verið fenginn til að semja tónlist við myndina. Kvikmyndin verður síðan sýnd í Hofi og Hörpu við lifandi undirleik Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands vorið 2020 þegar 100 ár verða liðin frá frumsýningu hennar. Stjórn Menningarsjóðs Gunnarsstofnunar ákvað að setja allt fjármagn til úthlutunar árið 2019 í þetta metnaðarfulla verkefni og var tilkynnt um 1,5 m.kr. framlag sjóðsins.

Í dagskránni í Gunnarshúsi var minnst á tvö kvikmyndaverkefni tengd sögum Gunnars. Annars vegar er Kvikmyndafélag Íslands að vinna að fjármögnun kvikmyndar eftir Aðventu sem Ottó Geir Borg hefur skrifað handrit að. Hins vegar var nýverið undirritaður samningur við erfingja skáldsins um sjónvarpsþáttaröð sem byggir á Svartfugli. Margrét Örnólfsdóttir sagði stuttlega frá því verkefni sem hún mun skrifa handritið að ásamt Páli Grímssyni kvikmyndaframleiðanda.

„Gunnar Gunnarsson lifir áfram í verkum sínum og arfleifð hans veitir innblástur og orku til nýrrar listsköpunar,“ sagði Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar, sem stýrði dagskránni á Dyngjuvegi. 

Á meðfylgjand mynd má sjá Gunnar Björn Gunnarsson stjórnarformann og Lilju Alfreðsdótturr mennta- og menningarmálaráðherra undirrita nýjan samning. Ljósm. SBG.

Hafðu samband

  • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Komdu í heimsókn

Fylgdu okkur