Skipulagsskrá Menningarsjóðs Stofnunar Gunnars Gunnarssonar var í dag, 16. apríl, staðfest á Skriðuklaustri með undirritun mennta- og menningarmálaráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, og Sigríðar Sigmundsdóttur, varaformanns stjórnar Gunnarsstofnunar. Tilgangur menningarsjóðsins er tvíþættur: Annars vegar að renna stoðum undir starfsemi Stofnunar Gunnars Gunnarssonar á Skriðuklaustri með árlegum framlögum til hennar; hins vegar að styðja rithöfunda, listamenn, fræðimenn og námsfólk til verka er samræmast fjölþættu hlutverki stofnunarinnar. Sjóðnum er því bæði ætlað að efla menningarstarf á Skriðuklaustri og styrkja ímynd Gunnarsstofnunar sem menningarstofnunar á landsvísu. Stofnandi sjóðsins er mennta- og menningarmálaráðuneyti og leggur það sjóðnum til rúmar 43 m.kr. sem stofnfé. Ætlunin er að safna frekari framlögum til að stækka sjóðinn. Reiknað er með árlegri úthlutun og að sú fyrsta fari 18. maí 2014 þegar 125 ár verða liðin frá fæðingu skáldsins.